
Streita - heilsufaraldur?

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hefur streita verið flokkuð sem heilsufaraldur 21. Aldarinnar.
Streita er almennt hugtak sem vísar í allt sem truflar jafnvægi (homeostasis) í líkamanum.
Eðlileg viðbrögð líkamans eru að stjórna þessu og fara aftur í jafnvægisástand þegar streituvaldurinn er liðinn. Ef streita er langvarandi eða líkaminn getur ekki endurheimt jafnvægi getur það orðið krónískt og tengst margvíslegum einkennum og langvinnum veikindum.
Streita hefur fylgt okkur frá upphafi mannkyns þegar við þurftum að bregðast við lífshættulegum aðstæðum og vernda okkur frá ýmsum hættum í umhverfinu. Við slíkar aðstæður bregst líkaminn við með því að hrinda af stað framleiðslu á stresshormónum eins og kortisóli og adrenalíni sem framkalla lífeðlisfræðilegar breytingar; hjartað slær hraðar, vöðvar spennast, heyrnin skerpist, það hægist á meltingunni og sársaukaskynjun minnkar. Þessi viðbrögð líkamans er kallað „berjast eða flýja“ (fight and flight).
Líkaminn bregst við streitu á sama hátt þegar við upplifum andlega streitu eða við borðum lélegan mat, sofum illa og hættum að hreyfa okkur. Hver sem streituvaldurinn er þá bregst líkaminn eins við.
Með langvarandi streitu er líkaminn okkar stöðugt í fight and flight ástandi og við framleiðum kortisól og sykurmagn í blóði hækkar sem getur haft skaðleg áhrif á okkur til langstíma.
Rannsóknir benda til að langvarandi streita getur aukið líkurnar á:
- Háum blóðþrýstingi og hjarta-og æðasjúkdómum
- Sykursýki 2
- Þyngdaraukningu
- Svefntruflunum og orkuleysi
- Meltingartruflunum
- Höfuðverk
- Liðverkjum
- Minni kynlöngun og ófrjósemi
- Veikara ónæmiskerfi
Til að vera í stakk búin að takast á við streitu er mikilvægt að huga að heilbrigðu líferni og hollu mataræði sem getur hjálpað til við að vinna gegn áhrifum streitu, styrkt ónæmiskerfið og lækkað blóðþrýsting.
Hvernig get ég tekist á við streituna?
- Borða hollt og gott.
- Forðast einföld kolvetni eins og sykur og hvítt hveiti
- Minnka kaffidrykkjuna og drekka áfengi í hófi
- Stunda núvitund og hugleiðslu
- Huga að djúpöndun
- Hreyfa sig daglega - 30 mínútna göngutúr getur gert kraftaverk
- Sofa vel. Reyndu að sofa 7-9 klukkustundir á nóttu.
- Tyggja matinn vel, 20-30 sinnum. Það hjálpar þér að hægja á þér, njóta matarins og þú meltir hann mun betur.
- Verðlauna sjálfan þig, með því að gera það sem þér þykir skemmtilegt með fjölskyldu og vinum.
Ekki láta streituna skaða heilsuna þín eða minnka lífsgæði.
Settu þig í fyrsta sæti og hlúðu að líkama og sál.